Fjárfestingar á verðbréfamarkaði – hugleiðingar fyrir smærri fjárfesta

Verðbréfamarkaðir leiða saman kaupendur og seljendur verðbréfa (hlutabréfa og skuldabréfa).  Þeir gegna mikilvægu hlutverki fyrir efnahag hverrar þjóðar; fyrir fyrirtæki, ríki og sveitarfélög sem eru með skráð verðbréf og þá sem fjárfesta í þeim. Virkur og trúverðugur verðbréfamarkaður skilar sterkara atvinnulífi, tækifærum til ávöxtunar fyrir fjárfesta og þar með hagsæld fyrir efnahagskerfið í heild.

En vel skal vanda það sem lengi á að standa. Að fenginni reynslu er ljóst að þegar vönduð vinnubrögð eru virt að vettugi getur það valdið ómældum skaða fyrir efnahagslífið í heild. Það er mikilvægt hverri þjóð að eiga sterk og góð fyrirtæki, og það er mikilvægt fyrir almenning að eiga góða fjárfestingarkosti. Því er það sameiginlegt verkefni að byggja upp öflugan og traustan verðbréfamarkað, með því að fylgja settum reglum og taka meðvituð skref.

Það er algengur misskilningur að viðskipti á verðbréfamarkaði séu einungis fyrir sterkefnaða einstaklinga, svokallaða fagfjárfesta eða stofnanafjárfesta. Þvert á móti eru smáir fjárfestar taldir vera burðarás fjárfestinga á markaði. En það er að ýmsu að huga þegar fjárfesting á verðbréfamarkaði er íhuguð. Hér fara nokkur atriði sem sérstaklega eru ætluð þeim smáu fjárfestum sem eru að huga að fjárfestingum á verðbréfamarkaði.

Hvað þarf ég að vita áður en ég byrja?

Vandaðu undirbúninginn

 • Aflaðu þér þekkingar um hvernig verðbréfamarkaðurinn virkar og hvernig meta eigi rekstur fyrirtækja, sæktu námskeið, lestu námsefni og vertu óspar á að leita þér ráðgjafar
 • Veltu fyrir þér hvaða fjárfestingarstefna hentar þér og hvort þú vilt sjá sjálf(ur) um þínar fjárfestingar eða fela þær eftirlitsskyldum aðilum sem hafa leyfi til að veita fjárfestingarráðgjöf og sinna eignastýringu.
 • Ef þú leitar til aðila sem sinna eignastýringu skoðaðu hversu góðri raunávöxtun (nafnávöxtun að teknu tilliti til verðbólgu) þeir hafa skilað sínum viðskiptavinum, en hafðu í huga að árangur fortíðar er ekki ávísun á árangur til framtíðar. Skoða má árangur tiltekinna sjóða á www.sjodir.is.
 • Kynntu þér allt tiltækt efni um þann fjárfestingarkost sem þú ert að hugleiða, s.s. lýsingu og ársreikning, en hvort tveggja á almennt að vera aðgengilegt á vefsíðum fyrirtækjanna.
  • Lestu þér t.d. til um rekstrarsögu, áhættuþætti, einkunnir matsfyrirtækja, rekstraráætlanir, framtíðaráform, arðgreiðslustefnu, stjórnarmenn og lykilstjórnendur, starfskjarastefnu, útgefið efni greiningaraðila og opinberra aðila og síðast en ekki síst stjórnarhætti, en nokkur fyrirtæki hafa farið í gegnum sérstaka úttekt á sínum stjórnarháttum. Þá er tilvalið að skoða að auki hvort fyrirtæki hafi sett sér siðareglur, stefnu um samfélagslega ábyrgð og samkeppnisréttaráætlanir.
 • Skoðaðu hvort auðvelt yrði að selja bréfin ef til þess kæmi, en seljanleika má t.a.m. meta með því að skoða fjölda og umfang viðskipta með verðbréf fyrirtækja og hvort viðskiptin séu regluleg. Athugaðu einnig hvort viðskiptavakt sé með bréfin og hvernig dreifingu eignarhalds er háttað, en hvort tveggja styður við seljanleika þeirra.

 

Kynntu þér lög og reglur

Kynntu þér það regluverk sem gildir um verðbréfamarkaðinn

 • Allir fjárfestar ættu að kynna sér vel þær leikreglur sem um viðskiptin gilda. Þegar um er að ræða viðskipti með hlutabréf er vert að skoða vandlega reglur er snúa að starfsemi hlutafélaga og réttindum hluthafa. Ef ætlunin er að fjárfesta í skuldabréfum er að auki ástæða til að fara vel yfir skilmála skuldabréfsins og reglur um réttindi kröfuhafa.
 • Skoðaðu sérstaklega hvort þú getir talist til innherja vegna aðgangs að innherjaupplýsingum um útgefanda verðbréfa eða sjálf verðbréfin sem þú hefur hug á að fjárfesta í, en um slík viðskipti gilda strangari reglur en almennt gerist.
 • Í útboðum ættu fjárfestar aldrei að skrá sig fyrir hærri fjárhæðum en þeir geta staðið við þar sem þeir gætu fengið úthlutun umfram greiðslugetu, auk þess sem slíkt gæti talist markaðsmisnotkun.
 • Innherjasvik, markaðsmisnotkun og skattalagabrot eru meðal alvarlegustu brota og geta varðað þungum refsingum.

Skyldur fjármálafyrirtækja gagnvart fjárfestum

 • Fjárfestar sem huga að viðskiptum á verðbréfamarkaði ættu að kynna sér vel þær skyldur sem hvíla á fjármálafyrirtækjum varðandi samskipti og þjónustu þeirra við viðskiptavini.
 • Í II. kafla laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 er að finna ítarleg lagaákvæði um vernd fjárfesta og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja. Með lögunum er fjármálafyrirtækjum gert skylt að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur í verðbréfaviðskiptum, með trúverðugleika og hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Ákvæðum II. kafla laganna er ætlað að skilgreina nánar hvað í þessu felst.
 • Fjármálafyrirtækjum er skylt að flokka viðskiptavini sína eftir því hvort þeir teljast til almennra fjárfesta, fagfjárfesta eða viðurkenndra gagnaðila. Flokkunin er byggð á mati á því hvort viðskiptavinur búi yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Ef viðskiptavinur er almennur fjárfestir gera lögin strangari kröfur um hvernig ráðgjöf og þjónustu fjármálafyrirtækja skuli háttað. Vert er að hafa í huga að fjárfestum sem teljast til fagfjárfesta er heimilt að óska eftir því við fjármálafyrirtæki að hafa stöðu almennra fjárfesta og njóta þannig aukinnar réttarverndar.
 • Í kaflanum  er m.a. kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækja til að gera skriflega samninga við viðskiptavini, skyldu þeirra til að skrá þjónustu og varðveita gögn, kröfur varðandi upplýsingagjöf til viðskiptavina, öflun upplýsinga um viðskiptavini og ráðleggingar vegna eignastýringar, fjárfestingarráðgjafar og annarra verðbréfaviðskipta, skilgreiningu á bestu framkvæmd og skyldu fjármálafyrirtækja varðandi framkvæmd viðskiptafyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.

Nokkur leiðbeinandi atriði

 • Leggðu einungis undir fjárhæðir sem þú hefur efni á að tapa
  • Verðmæti einstakra fjárfestingarkosta getur hækkað eða lækkað snögglega. Fjárfestingarákvarðanir ættu ávallt að taka mið af því að verðmæti einstakra fjárfestinga gæti glatast að fullu. 
 • Hugleiddu að áhætta og væntur ávinningur fara almennt saman
  • Fjárfesting í hlutabréfum og skuldabréfum felur alltaf í sér áhættu. Áhættan er mismikil eftir eðli fjárfestingarinnar og yfirleitt má segja að væntur ávinningur fjárfestinga vaxi með aukinni áhættu en með sama hætti aukast líkurnar á tapi. Í stuttu máli: Því hærri væntingar um gróða, þeim mun meiri hætta á að tapa fjárfestingunni.
  • Allir sem fjárfesta þurfa að meta hvort markmið þeirra sé stöðug ávöxtun með takmarkaðri áhættu eða skjótfenginn ávöxtun með aukinni hættu á tapi.
 • Dreifðu eign þinni
  • Vel dreift eignasafn m.t.t. starfsemi þeirra fyrirtækja sem fjárfest er í og tegundar verðbréfa (skuldabréf og hlutabréf) getur dregið verulega úr áhættu. Takmarkaður hluti eignasafns ætti því að vera bundinn í einstökum verðbréfum eða eignaflokkum.
  • Ein leið til að ná áhættudreifingu er með fjárfestingu í blönduðum verðbréfasjóðum.
 • Taktu mið af fjárfestingartíma
  • Við val á fjárfestingarkostum er hyggilegt að hafa í huga til hversu langs tíma er verið að fjárfesta. Fólk sem nálgast starfslok eða þarf að reiða sig á fjármagn sem hefur verið notað í fjárfestingar í náinni framtíð má almennt síður við sveiflum en yngra fólk og ættu fjárfestingar að taka mið af því.
  • Fjárfestar sem sjá fram á að þurfa að losa fjármagn með stuttum fyrirvara ættu að sama skapi að leitast við að takmarka sveiflur í verðmæti eignasafna sinna.  
 • Gerðu greinarmun á gæðum fyrirtækisins og gæðum fjárfestingarinnar
  • Hlutabréf útgefin af vel reknu og arðbæru fyrirtæki eru ekki sjálfkrafa góður fjárfestingarkostur. Fjölmörg dæmi eru um fjárfesta sem hafa tapað á því að fjárfesta í „góðum“ fyrirtækjum, einfaldlega vegna þess að hlutabréfin voru of hátt verðlögð við kaup.
  • Að sama skapi þarf meira að liggja að baki fjárfestingu í skuldabréfi en traustur skuldari. Þar þarf að skoða vel undirliggjandi veð og skilmála skuldabréfanna, einkum m.t.t. upplýsingaskyldu skuldara og vanefndaúrræða.
 • Hafðu auga með fjárfestingunni
  • Að fjárfesta í hlutabréfum eða skuldabréfum er viðvarandi verkefni. Breyttar aðstæður geta haft áhrif á ávöxtun og því er mikilvægt að fjárfestar séu vel á verði. Í því felst m.a. að mæta á hluthafafundi, fylgjast með opinberlega birtum upplýsingum frá útgefanda verðbréfanna og bregðast við ef þörf krefur, t.a.m. með því að gera breytingar á eignasafninu.
  • Mikilvægi markvissrar eftirfylgni eykst eftir því sem meiri áhætta er tekin með fjárfestingunni.
 • Varastu hjarðhegðun
  • Byggðu fjárfestingu í verðbréfum á vel ígrundaðri greiningu fremur en skammtímaþróun, orðrómi eða stemningu á markaði. Söguleg verðþróun er ekki ávísun á svipaða þróun í framtíðinni.

Hvað þarf ég að hafa í huga þegar ég sel?

 • Sumir ákveða áður en þeir fjárfesta hvenær þeir ætla sér að selja verðbréfin sín, t.d. við ákveðna hækkun eða lækkun verðbréfanna. Skoðaðu hvort slík nálgun henti þér.
 • Athugaðu að standa þarf skil á fjármagnstekjuskatti af innleystum hagnaði og arðgreiðslum. Ekki er heimilt að jafna tap af einni fjárfestingu á móti hagnaði af annarri og skattur greiðist af hagnaði án tillits til verðbólgu.

Þú ert þinnar eigin gæfu smiður

 • Það er vandasamt að fjárfesta á verðbréfamarkaði.
 • Á endanum berð þú ábyrgð á fjárfestingum þínum. Ef vel gengur nýtur þú góðs af, en ef illa fer berð þú skaðann. Varastu því að láta aðra hafa ótilhlýðileg áhrif á þínar ákvarðanir.
 • Ef þú ert með fjármuni í eignastýringu eða verðbréfasjóðum veittu aðhald, spyrðu spurninga og breyttu um stefnu eða þjónustuaðila ef þú telur ástæðu til. Það er þinn sjálfsagði réttur.

 

 

Nokkur mikilvæg hugtök

Verðbréf:

Með verðbréfi er átt við skv. a-lið 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007:

 • Þau framseljanlegu verðbréf sem hægt er að eiga viðskipti með á fjármagnsmarkaði, að undanskildum greiðsluskjölum, svo sem:
  1. hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum lögaðilum og heimildarskírteini fyrir hlut,
  2. skuldabréf eða skuld á verðbréfaformi, þ.m.t. heimildarskírteini vegna slíkra verðbréfa,
  3. önnur verðbréf sem veita rétt til að kaupa eða selja verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ræðst af verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum eða ávöxtunarkröfum, hrávörum eða öðrum vísitölum eða mælikvörðum.

Innherji:

Samkvæmt 121. gr. laga um verðbréfaviðskipti er með innherja átt við:

 1. fruminnherja, þ.e. aðila sem hefur að jafnaði aðgang að innherjaupplýsingum vegna aðildar að stjórn, rekstri eða eftirliti eða vegna annarra starfa á vegum útgefanda fjármálagerninga,
 2. tímabundinn innherja, þ.e. aðila sem telst ekki fruminnherji en býr yfir innherjaupplýsingum vegna eignaraðildar, starfs síns, stöðu eða skyldna, og
 3. annan innherja, þ.e. aðila sem hvorki telst fruminnherji né tímabundinn innherji en hefur fengið vitneskju um innherjaupplýsingar, enda hafi viðkomandi vitað eða mátt vita hvers eðlis upplýsingarnar voru.

Innherjaupplýsingar:

Samkvæmt 120. gr. laga um verðbréfaviðskipti er með innherjaupplýsingum átt við nægjanlega tilgreindar upplýsingar sem ekki hafa verið gerðar opinberar og varða beint eða óbeint útgefendur fjármálagerninga, fjármálagerningana sjálfa eða önnur atriði og eru líklegar til að hafa marktæk áhrif á markaðsverð fjármálagerninganna ef opinberar væru, eins og nánar er kveðið á um í reglugerð sem sett er skv. 131. gr. Upplýsingar teljast opinberar þegar útgefandi fjármálagerninga hefur birt almenningi á Evrópska efnahagssvæðinu þær í samræmi við ákvæði verðbréfaviðskiptalaga.

Innherjasvik:

Samkvæmt 1. mgr. 123. gr. laga um verðbréfaviðskipti er innherja óheimilt að:

 1. afla eða ráðstafa fjármálagerningum með beinum eða óbeinum hætti, fyrir eigin reikning eða annarra, búi hann yfir innherjaupplýsingum,
 2. láta þriðja aðila innherjaupplýsingar í té, nema það sé gert í eðlilegu sambandi við starf, stöðu eða skyldur þess sem upplýsingarnar veitir,
 3. ráðleggja þriðja aðila á grundvelli innherjaupplýsinga að afla fjármálagerninga eða ráðstafa þeim eða hvetja að öðru leyti til viðskipta með fjármálagerningana.

Markaðsmisnotkun:

Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti er markaðsmisnotkun óheimil. Með markaðsmisnotkun átt við að:

 1. eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
  1. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
  2. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði,
 2. eiga viðskipti eða gera tilboð sem byggð eru á tilbúningi eða þar sem notuð eru einhver form blekkingar eða sýndarmennsku,
 3. dreifa upplýsingum, fréttum eða orðrómi sem gefa eða eru líkleg til að gefa rangar eða misvísandi upplýsingar eða vísbendingar um fjármálagerninga, enda hafi sá sem dreifði upplýsingunum vitað eða mátt vita að upplýsingarnar voru rangar eða misvísandi.